Innlent

Ráðuneyti undrast fréttaflutning

Mynd/GVA
Félags- og tryggingamálaráðuneytið lýsir undrun á fjölmiðlaumfjöllun um andstöðu við áform stjórnvalda um að flytja þjónustu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Umrædd breyting hafi átt sér stað fyrir tveimur árum með lagabreytingu sem gerð hafi verið eftir víðtækt samráð við hagsmunaaðila.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst alfarið gegn tilfærslunni. Félagið hvatti fyrr í vikunni þingmenn til að greiða atkvæði gegn flutningunum þegar fjárlagafrumvarpið veðrur tekið til afgreiðslu á Alþingi.

„Í fjárlagafrumvarpi 2010 er gert ráð fyrir að fjárheimildir vegna öldrunarþjónustu færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins í byrjun næsta árs. Þar með er stigið síðasta skrefið í flutningi þessa málaflokks í eitt ráðuneyti," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Þar segir að tilfærslan sé í fullu samræmi við óskir aldraðra sem hafi ályktað að öldrunarmál eigi að færa undir eitt ráðuneyti. Skemmst sé að minnast þess að Landssamband eldri borgara hafi beint sérstakri áskorun til ráðherra á landsfundi samtakanna í maí þess efnis að þessi breyting yrði að veruleika.

„Hvorki notandi né starfsfólk þjónustunnar mun finna fyrir breytingum þótt fjárheimildir færist á milli ráðuneyta. Þjónustan verður veitt með nákvæmlega sama hætti, á sama stað og af sama starfs­fólki og sömu faglegu kröfur verða gerðar til sérhvers þjónustuþáttar. Heilbrigðis­starfmenn einir munu eftir sem áður veita heilbrigðisþjónustu innan sem utan dvalar- og hjúkrunarheimila undir eftirliti landlæknis."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×