Erlent

Neyðarlínan er fyrir fólk í neyð, punktur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Neyðarsímverðir bresku neyðarlínunnar og lögregla þar í landi hafa fengið meira en nóg af fólki sem hringir í neyðarlínuna vegna mála sem teljast í besta falli hlægileg.

Lögreglan í Manchester hefur birt opinberlega upptöku af símtali í neyðarnúmerið 999 með það fyrir augum að brýna fyrir fólki að misnota neyðarsímsvörunina ekki með tilhæfulausu rugli. Símtalið var frá konu sem var felmtri slegin vegna þess að kötturinn hennar var að leika sér með garnhnykil og hafði flækt sig í garninu.

Annar borgari hringdi í neyðarlínuna eftir að hafa lagt bíl sínum á ísi lögðum vegi og þorði sá ekki að reyna að aka af stað aftur í hálkunni. Nóg var að gera hjá neyðarsímvörðum í Bretlandi sem fengu tæplega 1,4 milljónir símtala á tímabilinu frá aðfangadagskvöldi til annars í jólum. Að sögn lögreglu snerist einungis brot af símtölunum um raunveruleg neyðartilvik en slík símtöl geta hæglega haldið starfsfólki neyðarlínunnar uppteknu á meðan fólk í raunverulegri hættu bíður á línunni.

Karan Lee, yfirmaður neyðarlínunnar, segir það alveg ótækt að fólk hringi skelfingu lostið vegna þess að jólamaturinn sé að brenna við, neyðarlínan sé fyrir fólk í lífsháska. Þar á bæ búa menn sig nú undir hressandi gamlárskvöld en neyðarlínan afgreiddi 2.400 símtöl á fyrstu sex klukkustundum þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×