Lífið

Konur að taka yfir Mýrarboltamótið

Mýrarboltamótið á Ísafirði er orðið árviss viðburður um verslunarmannahelgina og konur virðast sérstaklega áhugasamar um að demba sér ofan í mýrina.Fréttablaðið/Vilhelm
Mýrarboltamótið á Ísafirði er orðið árviss viðburður um verslunarmannahelgina og konur virðast sérstaklega áhugasamar um að demba sér ofan í mýrina.Fréttablaðið/Vilhelm

„Við erum komnir með lið frá Kanada og svo hafa pólskir túristar boðað komu sína. Við erum í þeirra augum orðið eitthvert gósenland þar sem allt er nánast gefins,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson, drullusokkur hins árlega Mýrarboltamóts sem haldið er á Ísafirði um verslunarmannahelgina.

Rétt er að taka fram að aðstandendur mótsins líta á það sem Evrópumeistaramótið en heimsmeistaramótið var haldið í Finnlandi um þarsíðustu helgi. Jóhann státar reyndar af þátttöku á því móti, keppti þá með sænska liðinu. „Við töpuðum öllum leikjunum, fengum alveg skelfilega dómgæslu. Mér var síðar sagt að Finnarnir hefðu dæmt miskunnarlaust á móti okkur til að hefna fyrir einhverja aldalanga kúgun.“ Jóhann bjóst þó ekki við liðum frá hinum Norðurlöndunum enda væru þau blönk eins og Íslendingar.

Mýrarboltamótið var fyrst haldið árið 2004, vakti töluverða athygli og hefur verið haldið allar götur síðan þá. Þótt notaður sé fótbolti í leiknum á mýrarboltinn sjálfur lítið sameiginlegt við knattspyrnu. „Ef þú hefur getað tekið skærin einhvern tímann á græna vellinum þá nýtist það þér ekki í drullunni,“ útskýrir Jóhann en eftirsóttustu verðlaunin, merkilegt nokk, eru titillinn drullugasti keppandinn.

Drullusokkurinn Jóhann segir konur sækja mikið í þessa íþróttagrein hér á landi. „Fyrsta árið voru þær svona tuttugu prósent, í fyrra voru þær fjörutíu og við reiknum með að þær geti orðið meira en helmingur þátttakenda í ár,“ segir Jóhann og bætir því við að þær leggi mikið upp úr búningum sínum. Áhugasamir geta enn skráð sig til leiks á heimasíðunni myrarbolti.com en mótið getur aðeins tekið við 350 manns. „Lokahófið annar ekki fleirum,“ segir Jóhann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×