Viðskipti innlent

Kaupþingsdómurinn sendir sterk skilaboð

Jónatan Þórmundsson.
Jónatan Þórmundsson.
Dómstólar virðast með dómnum vilja marka þáttaskil og senda sterk skilaboð út í þjóðfélagið. Þetta segir Jónatan Þórmundsson, sérfræðingur í refsirétti og fyrrverandi ríkissaksóknari, um 8 mánaða fangelsisdóm yfir tveimur fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Daníel Þórðarson og Stefni Agnarsson, fyrrverandi starfsmenn Kaupþings í 8 mánaða óskilorðsbundið fangelsi í morgun fyrir markaðsmisnotkun. Brotið átti sér stað í byrjun árs 2008 en ríkislögreglustjóri gaf út ákæruna í febrúar á þessu ári. Mennirnir neituðu báðir sök við aðalmeðferð málsins.

Jónatan Þórmundsson, sérfræðingur á sviði refsiréttar, segir dóminn koma honum þannig fyrir sjónir að hann sendi mjög sterk skilaboð út í þjóðfélagið. „Það svona virðist vera eins og það hafi haft nokkur áhrif hin mikla undiralda sem er í þjóðfélaginu."

Með hliðsjón af öðrum sérrefsilagabrotum á sviði fjármunabrota sé algengt að dómar gangi út á sektir eða skilorðsdóma. Að hans mati er því um að ræða strangan dóm í þessu tilfelli.

„Ég geri ráð fyrir því að dómurinn hafi þarna reynt að finna bil beggja og finna ákveðið jafnvægi á milli jafnréttissjónarmiða annars vegar og hins vegar þeirrar miklu nauðsynjar að taka föstum tökum þau fjármálabrot sem hafa leitt af bankahruninu," segir Jónatan.

„Ég get ekki skilið þetta öðruvísi, þetta strangan og óskilorðsbundin dóm, en að dómstólar vilji strax í upphafi marka ákveðin þáttaskil og senda þessi skilaboð út í þjóðfélagið."

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Dómsniðurstaðan vonbrigði fyrir verjanda

„Dómsniðurstaðan er vonbrigði og við erum að skoða hvort við áfrýjum," segir Hákon Þorsteinsson, lögmaður Stefnis Agnarssonar, fyrrverandi verðbréfamiðlara hjá Kaupþingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×