Erlent

Forseti Afganistans einn í framboði

á fundinum Abdullah tilkynnti um ákvörðun sína á fundi með fréttamönnum í gærmorgun. Hann hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hann ræddi kosningasvik og sagði ákvörðunina hafa verið mjög erfiða. fréttablaðið/ap
á fundinum Abdullah tilkynnti um ákvörðun sína á fundi með fréttamönnum í gærmorgun. Hann hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hann ræddi kosningasvik og sagði ákvörðunina hafa verið mjög erfiða. fréttablaðið/ap

Seinni umferð forsetakosninga mun fara fram í Afganistan um næstu helgi þrátt fyrir að forsetinn, Hamid Karzai, sé einn í framboði. Keppinautur hans, Abdullah Abdullah, dró framboð sitt formlega til baka í gær.

Abdullah segir að kosningarnar verði ekki heiðarlegar. Kröfum hans um aðgerðir til að koma í veg fyrir kosningasvindl hafi ekki verið mætt, en hann hafði krafist þess að forsetinn skipti út fulltrúum í kosningastjórn en það var ekki gert. Eftir fyrri umferð kosninganna var þriðjungur atkvæða Karzai ógildur af kosningaeftirlitsmönnum vegna svindls. Abdullah segir það hag þjóðarinnar að hann dragi framboðið til baka. Hann sagðist í samtali við fréttamenn ekki ætla að hvetja fólk til að sniðganga kosningarnar, stuðningsmenn hans ættu að gera það upp við sig sjálfir hvort þeir kjósi eða ekki. Hann hvatti fólk þó til þess að mótmæla ekki.

Sendiherra Bandaríkjanna í landinu hafði fundað stíft með forsetaframbjóðendunum tveimur langt fram á nótt á laugardag með það í huga að mynda samsteypustjórn þar sem þeir myndu deila völdum. Þar krafðist Abdullah þess að þrír meðlimir kosningastjórnarinnar yrðu látnir fara ásamt þremur ráðherrum. Þá vildi hann að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni svo hann hefði áhrif á val á ráðherrum og aðrar stórar ákvarðanir, samkvæmt heimildum AP-fréttastofunnar. Karzai hafnaði þessu öllu snemma á sunnudagsmorgun. Það að Abdullah hafi ekki hvatt fólk til að sniðganga kosningarnar er talið benda til þess að hann sé tilbúinn til frekari viðræðna, sé forsetinn tilbúinn til þess.

Málið hefur komið sér illa fyrir Bandaríkjastjórn, sem reynir að ákveða hvort senda skuli tugi þúsunda hermanna til viðbótar til Afganistans. Hún telur að samsteypustjórn og samvinna sé besta leiðin til þess að ná árangri í stríðinu gegn talibönum. Ágreiningur um kosningarnar hafi sundrað þjóðinni, sem ætti að standa saman. Átökin hafa harðnað og í októbermánuði létust að minnsta kosti 57 bandarískir hermenn. Stjórnin hafði ætlað að bíða eftir úrslitum kosninganna til að tilkynna ákvörðun sína. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×