Enski boltinn

O'Neill á fund með Laursen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Laursen í leik með Aston Villa.
Martin Laursen í leik með Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images
Martin O'Neill, stjóri Aston Villa, mun funda með Martin Laursen, leikmanni félagsins, eftir helgina vegna meiðsla þess síðarnefnda.

Laursen hefur átt við þrálát hnémeiðsli að stríða og hefur verið frá vegna þeirra síðan í janúar síðastliðnum. Hann mun ekkert spila meira með liðinu á núverandi leiktíð.

Vangaveltur eru um að Laursen gæti neyðst til að leggja skóna á hillunna vegna meiðslanna. O'Neill vill þó ekki taka svo djúpt í árinni.

„Martin hefur átt erfitt uppdráttar. Það eru margar sögusagnir á kreiki en ég hef gefið Martin leyfi til að heimsækja fjölskyldu sína í Danmörku."

„Ég mun svo hitta hann á mánudaginn og ræða framhaldið. Ég vil heyra hvað hann hefur að segja um þetta."

O'Neill sagði að möguleiki væri á því að læknar þyrftu að framkvæma aðgerð á hnénu til að leiðrétta einhverja kvilla en vildi þó ekki koma með langtímaspá um hans stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×