Erlent

Berlusconi segist bestur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ekki skortir eldmóðinn hjá þeim gamla.
Ekki skortir eldmóðinn hjá þeim gamla.

Ítalski forsætisráðherrann Silvio Berlusconi segist kinnroðalaust vera besti þjóðarleiðtogi í sögu Ítalíu.

Berlusconi er kominn á áttræðisaldur en lætur þó engan bilbug á sér finna og er reyndar orðinn sá þjóðarleiðtogi Ítalíu sem lengst hefur setið í embætti en hann er nú á sínu þriðja kjörtímabili. Ýmis hneykslismál hafa skreytt feril forsætisráðherrans en hann hefur jafnan látið gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta og jafnvel svarað fullum hálsi. Það gerði hann til dæmis í viðtali í gær þar sem hann lét spænska blaðið El Pais heyra það.

Fullyrti Berlusconi að hann hefði aldrei greitt fyrir kynlíf og að vændiskona sem gerði hljóðupptöku af samskiptum sínum við hann gæti átt von á 18 ára fangelsi verði hún sek fundin. Lögfræðinga Berlusconis hefur ekki skort verkefni undanfarið þar sem þeir hafa verið önnum kafnir við að stefna hinum og þessum fjölmiðlum, innan sem utan Ítalíu, vegna ítrekaðra frétta af forsætisráðherranum og áhuga hans á portkonum.

Lífseig saga segir til að mynda að samkvæmi á vegum ráðherrans hafi verið þéttsetið vændiskonum en hann svarar því einu að fjölmiðlar sem standi fyrir slíkum söguburði séu í besta falli ótrúverðugir. Í versta falli eigi þeir hins vegar von á kæru frá Berlusconi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×