Erlent

Hreinni rigning í Noregi

Óli Tynes skrifar
Dropar detta á minn koll...
Dropar detta á minn koll...

Minna fellur í dag af súru regni í Noregi en nokkrusinni síðan á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar.

Norska blaðið Aftenposten segir að Umhverfisstofnun landsins reki það til minni útblásturs á breinnisteins- og köfnunarefnissamböndum í Evrópu.

Það hefur leitt til þess að súlfat í rigningu í Noregi hefur minnkað um áttatíu prósent. Það hefur svo aftur leitt til þess að tegundir sem ekki þola súra rigningu eru að ná sér aftur á strik.

Enn er þó langt í land því botndýr og krabbadýr í norskum ám og vötnum þurfa langan tíma til þess að jafna sig.

Ellen Hambro forstöðumaður Umhverfisstofnunar segir að til þess þurfi enn að draga úr hinum skaðlega útblæstri.

Norðmenn hafa lagt sitt af mörkum til þess. Um 1970 var brennisteinsútblástur þar um 150 þúsund tonn á ári.

Norðmenn skuldbundu sig til þess að minnka hann niður í 22 þúsund tonn fyrir árið 2010. Því markmiði hefur þegar verið náð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×