Erlent

Bandaríkjamenn héldu að það yrði dansað á götunum

Óli Tynes skrifar
Það hefur aðeins verið dansaður dauðadans á götum í Írak frá því stríðinu lauk.
Það hefur aðeins verið dansaður dauðadans á götum í Írak frá því stríðinu lauk.

Bretar sárbændu Bandaríkjamenn um að búa sig vel undir að takast á við ástandið í Írak að innrásinni lokinni, að sögn bresks diplomats.

Bretar höfðu litlar áhyggjur af stríðinu sjálfu. Þeir töldu næsta víst að bandamenn myndu sigra íraska herinn fljótt og örugglega.

Þá myndi hinsvegar taka við gríðarleg vinna við að reisa Írak úr rústum stríðsins.

Edward Chaplin bar vitni fyrir rannsóknarnefnd á aðdraganda innrásarinnar í Lundúnum í dag. Hann var yfir Miðausturlandadeild breska utanríkisráðuneytisins á þeim tíma og síðar sendiherra í Bagdad.

Chaplin sagði að eftir því sem nær dró innrásinni hafi áhyggjur Breta aukist. Breskir ráðherrar og embættismenn á öllum stigum hafi reynt að fá gagnaðila sína í Bandaríkjunum til þess að taka þetta alvarlega.

Tony Blair hafi oftar en einusinni rætt málið við George Bush.

Í Bandaríkjunum hafi hinsvegar verið hjartnæm trú á að það yrði dansað á götunum þegar innrásarherinn kæmi.

Það fór eins og Bretar áttu von á, stríðið vannst á skömmum tíma. Hinsvegar hefur ekki enn tekists að vinna friðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×