Erlent

Óvæntir morgunverðargestir í Hvíta húsinu

Óli Tynes skrifar
Allir vilja heimsækja Barack og Michelle.
Allir vilja heimsækja Barack og Michelle.

Fullorðnum hjónum sem fóru dagavillt í heimsókn í Hvíta húsið í Washington var óvænt boðið í morgunmat með forsetahjónunum. Það var tveim vikum áður en boðflennurnar alræmdu komu í forsetabústaðinn.

Hvíta húsið er til sýnis almenningi á vissum dögum og Harvey og Paula Darden frá Hogansville í Georgíu höfðu fengið sveitarstjórnarmann sem þau þekktu í Georgíu til þess að útvega sér miða í slíka skoðunarferð.

Þau Harvey og Paula sem eru 67 ára gömul hlakkaði mjög til að heimsækja forsetabústaðinn. Þau fóru hinsvegar dagavillt, komu degi fyrr en þau áttu.

Þeim var engu að síður boðið inn og þau héldu að skoðunarferðin væri að hefjast. Allt þartil þeim var sagt að þau væru ásamt fleira fólki að fara í morgunverðarboð hjá forsetahjónunum.

Harvey og Paula ætluðu sér alls ekki að vera neinar boðflennur og véku sér því að aðstoðarmanni til að spyrja hvort þau hefðu villst af leið. Hann brosti bara og sagði þeim að halda áfram með hinum.

Og Harvey og Paula borðuðu morgunmat með forsetahjónunum.

Talsmaður Hvíta hússins sagði að það væri ekki óalgengt að gestum þar væri leyft að vera viðstaddir aðra atburði en þeir hefðu ætlað, ef væri pláss. Til dæmis þegar forsetaþyrlan væri að lenda.

Leyniþjónustan hefði flett þeim Harvey og Paul upp í skrám sínum og þau hefðu haft hreinan skjöld. Þar sem ekki var nein skoðunarferð um Hvíta húsið á þessum degi, hefðu verið ákveðið að bæta þeim það upp með þessum hætti.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×