Erlent

Lonely Planet velur tíu helgustu staði heims

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jerúsalem á annað sætið yfir helgustu staði heims að mati Lonely Planet.
Jerúsalem á annað sætið yfir helgustu staði heims að mati Lonely Planet. MYND/Reuters

Ferðabókaútgefandinn Lonely Planet hefur gefið út lista yfir tíu helgustu staði heimsins.

Lítil eða engin takmörk eru fyrir því sem skriffinnar Lonely Planet láta sér detta í hug en þeir hafa nú komið sér upp lista yfir það sem þeir telja vera tíu helgustu staði heimsins í trúarlegu tilliti. Reuters-fréttastofan birtir listann á síðu sinni en tekur jafnframt fram að hún taki enga ábyrgð á listanum eða því sannleiksgildi sem hann kunni að búa yfir.

Á toppi þessa merkilega lista trónir nígeríska háskólaborgin Ife en að sögn þarlendra trúarbókmennta lét guðinn Oludumare son sinn, Oduduwa, síga niður til jarðar í gullkeðju og gróðursetja þar pálmatré sem síðar blómstraði og skapaði þar með allan heiminn og hina sextán Yoruba-ættbálka sem nígeríska þjóðin er komin undan. Ife toppar þar með sjálfa Jerúsalem sem lendir í öðru sæti listans en þar á hornsteinn alls heimsins að liggja í musteri Sólómons sem múslimar telja það allra heilagasta. Somnath-hofið í Gujarat á Indlandi er næst en þar á hindúaguðinn Somraj að hafa skapað alheiminn og endurskapað hann svo margsinnis með aðstoð hins andlega meistara Krishna.

Í fjórða sæti listans er Kenýa-fjallið í Kenýa en það er fyrsti staðurinn á listanum sem er ekki haldið fram að heimurinn hafi orðið til á. Í kjölfarið fylgja svo staðir í Tíbet, Egyptalandi, Kína, Bólivíu, Grikklandi og meira að segja Washington í Bandaríkjunum en við Chelan-stöðuvatnið þar telja indíánar að hinn mikli himnahöfðingi hafi skapað allan heiminn og þar að auki skilið eftir leiðbeiningabækling handa mannfólkinu um hvernig það ætti að hegða sér í lífinu. Lesendur Lonely Planet geta því valið um fjölda staða þegar þeir ætla að gera það upp við sig hvar heimurinn varð til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×