Skoðun

„Íslenska ákvæðið“ er efnahagsmál

Illugi Gunnarsson skrifar
Illugi Gunnarsson skrifar um Kyoto-bókunina

Meirihluti þingmanna er að baki þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni sé falið að tryggja að efni og tilgangur „íslenska ákvæðisins" í Kyoto -bókuninni haldi gildi sínu. Íslenska ákvæðið er reyndar ekki eitthvað séríslenskt ákvæði. Þetta er almennt ákvæði sem snýr að smáríkjum sem nota við iðnframleiðslu hreina orku og nýjustu tækni í mengunarvörnum. Ákvæðið er í samræmi við það markmið að draga úr hlýnun jarðar, loftslagsvandinn er hnattrænn og þá á að framleiða þar sem minnst mengun verður. En það er viðeigandi að ákvæðið sé nefnt „íslenska ákvæðið" því við Íslendingar fengum það samþykkt og öðrum þræði er ákvæðið viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð í umhverfismálum.

Allir eru sammála um að yfirráð okkar yfir náttúruauðlindum landsins er grunnur þess að hér sé hægt að byggja upp blómlegt samfélag. íslenska ákvæðið rýmkar möguleika okkar til að nýta orkuna í iðrum jarðar og aflið í fallvötnunum til þess að skapa störf og velmegun. Ef niðurstaða Kaupmannahafanarfundarins í desember verður sú að skerða mjög möguleika okkar á því að nýta orkulindirnar okkar þá er í raun verið að skerða forræði okkar yfir þessum mikilvægu náttúruauðlindum. Slík niðurstaða væri mjög vond fyrir íslenskt efnahagslíf og hún væri líka vond fyrir baráttuna gegn of mikilli hlýnun jarðar.

Það er áhugavert að bera saman stöðu Norðmanna og okkar Íslendinga í þessu samhengi. Norðmenn eru olíuþjóð og olíulindirnar skapa þeim gríðarlegan auð. Þeir dæla upp olíunni eins og þeir vilja og selja til annarra landa. Mikil mengun fylgir olíunni en sú mengun dregst frá mengunarkvóta þess ríkis sem nýtir olíuna. Með öðrum orðum, loftslagssáttmálarnir gera ráð fyrir því að olíuríki eins og Noregur geti fullnýtt sína auðlind án takmarkana, en við Íslendingar verðum sett í skrúfu vegna þess að okkar orkulindir eru staðbundnar og nýting orkunnar þar með einnig. Íslenska ákvæðið er m.a. tilraun til að leiðrétta þessa skekkju.

Höfundur er alþingismaður.

 




Skoðun

Sjá meira


×