Innlent

Hjúkrunarfræðingar andsnúnir tilfærslu

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Mynd/Anton Brink
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst alfarið gegn þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar að færa alla þjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Stjórn félagsins hvetur þingmenn til að greiða atkvæði gegn fyrirhuguðum flutningi þegar frumvarp til fjárlaga 2010 verður tekið til afgreiðslu á Alþingi.

„Stefna stjórnvalda er og hefur verið að gera öldruðum kleift að búa sem lengst á eigin heimili með viðeigandi aðstoð. Sú stefna leiðir af sér að þeir öldruðu einstaklingar sem flytjast á hjúkrunarheimili eru eldri en áður var og þeir glíma alla jafna einnig við fjölþættari og alvarlegri heilsufarsvandamál en áður. Þeir flytjast á hjúkrunarheimili til að fá hjúkrun og aðra heilbrigðisþjónustu en ekki sem félagslegt búsetuúrræði," segir í ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Þar segir að vistunarmat liggi til grundvallar flutnings fólks á hjúkrunarheimili enda hafi önnur úrræði svo sem sérhæfð dagvist, hvíldarinnlögn og heimahjúkrun verið reynd til fulls. Stjórnvöld boði að fagleg stjórnun og eftirlit með hjúkrunarheimilum verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stjórn félagsins leggur áherslu á að fagleg og fjárhagsleg yfirstjórn fari saman og falli undir eitt og sama ráðuneytið. Slík skipan auki líkur á faglegri og réttlátri þjónustu.

„Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt sé að því að málefni aldraðra færist til sveitarfélaga samhliða því að heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti sameinist. Stjórn Fíh skorar því á stjórnvöld að hætta við boðaðan flutning hjúkrunarheimila frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis nú um áramótin," segir í ályktun stjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×