Lífið

Mannakornabörnin syngja með

Elísabet, til vinstri, syngur með mömmu sinni og Ragnheiður með pabba sínum á Nasa í kvöld.Fréttablaðið/Pjetur
Elísabet, til vinstri, syngur með mömmu sinni og Ragnheiður með pabba sínum á Nasa í kvöld.Fréttablaðið/Pjetur

„Þetta er mjög skemmtilegt og við náum rosalega vel saman,“ segir söngkonan Elísabet Eyþórsdóttir.

Elísabet syngur bakraddir með hljómsveitinni Mannakornum á Nasa í kvöld ásamt Ragnheiði Helgu Pálmadóttur. Og ekki að ástæðulausu – Elísabet er nefnilega dóttir Ellenar Kristjánsdóttur og Ragnheiður er dóttir Pálma Gunnarssonar, en eins og flestir vita eru þau aðalsöngvarar Mannakorna. Mannakornabörnin fá því að syngja með.

Elísabet og Ragnheiður hittust fyrst þegar Mannakorn flutti lag í Kastljósinu í síðustu viku. Þær renndu því algjörlega blint í sjóinn, en eru báðar virkilega ánægðar með hvernig raddir þeirra hljóma saman. „Þetta kom mjög vel út og var rosaflott. Mér finnst hún Elísabet alveg ótrúlega góð söngkona. Hún er svo skemmtilega lík mömmu sinni,“ segir Ragnheiður um flutninginn í Kastljósinu og Elísabet tekur undir: „Ragnheiður gæti ekki verið meira frábær.“

Ragnheiður er ekki vön að koma fram og hlakkar mikið til. „Ég er að klára master í lyfjafræði og það er alveg frábært að breyta aðeins til,“ segir hún. Elísabet er öllu vanari á sviðsmanneskja. Hún sendi frá sér plötuna Þriðja leiðin árið 2006, en á henni flutti hún lög Barkar Hrafns Birgissonar við ljóð Einars Más Guðmundssonar. „Það er ómetanlegt að fá að taka þátt í þessu með fjölskyldunni,“ segir Elísabet. „Það er rosalega gaman. Allir í svaka fjöri. Alveg æðislegt.“

Tónleikar Magnúsar Eiríkssonar, Buffs og Mannakorna hefjast klukkan 20.30 í kvöld. Tilefni þeirra er útgáfa safnplötu Magnúsar, Reyndu aftur, sem hann vann með Buffi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.