Erlent

Evrópusambandið berst gegn fátækt árið 2010

Evrópusambanslöndin eru þau ríkustu í heimi. Þrátt fyrir þá staðreynd eiga 17 prósent íbúanna ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. Evrópusambandið helgar árið 2010 baráttunni gegn fátækt.

Fátækt er í huga margra tengd þróunalöndum, þar sem daglegt viðfangsefni fjölskyldna er að afla nægra matvæla og vatns til að draga fram lífið.

Fátækt og ójöfnuður virðist þó í æ meira mæli setja mark sitt á Evrópu þrátt fyrir að viðmiðin séu önnur. Ef gert er ráð fyrir að fátækramörk séu dregin við 60 prósent af meðalrástöfunartekjum lifa 79 milljónir manna, í löndum sem tilheyra Evrópusambandinu, undir fátækramörkum, þar ef eru 19 milljónir börn.

Þrátt fyrir að flest okkar eigi á lífsleiðinni hættu á að upplifa fátækt eru sumir þó líklegri til þess en aðrir. Í þeim hópi eru öryrkjar, innflytjendur, konur, fíklar, eldri borgarar og fólk með börn á framfæri. Íbúar í Evrópu virðast gera sér grein fyrir ástandinu.

Tuttugu og sjö þúsund íbúar í öllum löndum Evrópusambandsins tóku nýverið þátt í könnun og í niðurstöðum sem birtar voru í vikunni kemur fram að 73 prósent aðspurðra telja fátækt útbreitt vandamál í sínu heimalandi og 89 prósent vilja að stjórnvöld grípi til aðgerða.

Evrópusambandið setur markið hátt á árinu 2010, að binda enda á fátækt.

Engar töfralausnir eru í boði en vonast er til að stjórnvöld og almenningur leggi sitt af mörkum til að byggja upp samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að blómstra, að stjórnendur fyrirtækja geri sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð og fjölmiðlar leggi sitt af mörkum til að brjóta niður staðalmyndir og fordóma gagnvart fátækum. Fátækir eru um 16 prósent þeirra sem búa í Evrópusambanslöndunum, 79 milljónir manna sem lifa undir fátækramörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×