Erlent

Enn ein flökkusaga af dauða Kim Jong-il

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kim Jong-il, lengst til vinstri.
Kim Jong-il, lengst til vinstri.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu lýstu því yfir opinberlega í morgun að ekkert væri hæft í því að Kim Jong-il Norður-Kóreuleiðtogi hefði verið myrtur eftir að sögusagnir um það komust á kreik.

Það var Chun Hae-sung, talsmaður sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu, sem bar orðróminn til baka en síðustu daga gekk sú saga manna á milli að Kim Jong-il hefði verið myrtur í árás óþekktra tilræðismanna. Fregnirnar höfðu strax áhrif á hlutabréfamarkaðinn þar austur frá og lækkuðu einhverjar vísitölur tengdar norðurkóreskum fyrirtækjum - þó ekki mikið.

Fregnir af dauða kommúnistaleiðtogans eru nær daglegt brauð og hefur japanska leyniþjónustan til dæmis haldið því fram að Kim Jong-il hafi safnast á vit feðra sinna fyrir löngu en staðgenglar sem líkist honum gegni hlutverki hans opinberlega til að tryggja tök kommúnistaflokksins á þjóðinni. Almennt er þó talið líklegra að karlinn sé enn á róli en vitað er að hann fékk heilablóðfall í ágúst í fyrra auk þess sem suðurkóreskir fjölmiðlar segjast hafa fengið það staðfest að hann berjist við krabbamein í briskirtli, sykursýki og hjartveiki en leiðtoginn á nú rúmt ár í sjötugt.

Á meðan þessar sögur ganga keppast fjölmiðlar í Norður-Kóreu við að segja frá því að Jong-il sé fjallhress á þvælingi um allt land að heimsækja verksmiðjur og bóndabæi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×