Innlent

Seðlabanki Evrópu bakhjarl krónunnar

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir fjölmargar leiðir færar fyrir Seðlabanka Evrópu að aðstoða Seðlabanka Íslands í gjaldeyrismálum. „Það má í sjálfu sér ímynda sér margvíslegar leiðir til þess en þær myndu flestar fela í sér með einum eða öðrum hætti að evrópski seðlabankinn stuðlaði að virkum viðskiptum með krónur."

Eftir að samþykkt var að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið sagði Gylfi Magnússon í viðtali við Fréttablaðið það vel koma til greina að ganga á fund Seðlabanka Evrópu strax í haust varðandi samstarf í gjaldeyrismálum.

Hann segir að stofnun eins og Seðlabanki Evrópu hafi margvísleg tæki sem hann geti notað til að aðstoða Ísland og ekki sé endilega víst að það hafi mikinn fjárhagslegan kostnað í för með sér fyrir bankann.

„Í þeirra tilfelli væri um að ræða kaup og sölur á krónum og evrum. Um leið og það yrði virkur markaður fyrir krónur og evrur með bakhjarl eins og evrópska seðlabankann þá væri björninn unninn hvað það varðar að gera markaðinn með krónur nothæfan á ný," segir Gylfi. „Aðalmálið er að markaðurinn verði dýpri og að sterkir aðilar standi á bak við kaup og sölutilboð á markaðnum."

Gylfi segir að samstarf myndi auk þess flýta fyrir því að Ísland gæti afnumið gjaldeyrishöftin og uppfyllt að fullu skilyrði EES um frjálst fjármagnsflæði. Hann segir það vel hugsanlegt að samstarfið væri eitthvað í líkingu við gjaldeyrisprógramm Seðlabanka Evrópu sem kallast ERM II sem er undanfari þess að lönd geta tekið upp evruna. Það eigi þó eftir að semja um þessi málefni svo sem ákveðin vikmörk á gengi krónunnar og hvort bankinn kæmi til með að veita Seðlabanka Íslands lán eða einhverjar lánalínur.

Gylfi segir það ef til vill ekki gott að fara að lýsa öllum óskum um samstarf á þessum tímapunkti áður en rætt er við bankann.

Samkvæmt svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Fréttablaðsins um hugsanlegt samstarf segir að væntanlega verði spurt um slíkt vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Engin sérstök breyting hafi orðið á starfsháttum bankans á þessu stigi en bendir þó á að stjórnendur bankans hitti forsvarsmenn annarra seðlabanka reglulega á fundum.

bta@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×