Innlent

Gylfa líst illa á hugmyndir framsóknarmanna

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að leita verði annara leiða til þess að koma til móts þá verst stöddu í þjóðfélaginu en þá leið sem Framsóknarflokkurinn kynnti í gær. Framsóknar menn vilja að 20 prósent íbúðalánaskulda almennings verði felldar niður. Gylfi segist ekki geta fallist á að svigrúm sé til þess að fella niður skuldir allra um 20 prósent.

Hann bendir á að sem betur fer sé það þannig að þó sumir séu illa staddir fjárhagslega eigi það ekki við um alla. „Ef öll lán væru afskrifuð um 20 prósent væri verið að rýra mjög eignir bankanna og kostnaðurinn við það væri mun meiri en hægt væri að réttlæta," sagði Gylfi í svari sínu við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur þingkonu Framsóknarflokksins á Alþingi í dag.

Að mati Gylfa verður því að beita öðrum leiðum en þessari til þess að koma til móts við þá sem verst eru staddir. Þegar Eygló spurði ráðherrann þá hvaða leiðir eigi að fara sagðist Gylfi sammála henni um að á málinu verði að taka.

Hann sagðist sjá fyrir sér allmörg úrræði sem tækju tillit til stöðu hvers og eins en væru þó með almennum reglum. Í einhverjum tilvikum þurfi að afskrifa, stundum verði hægt að lengja í lánum og hugsanlega má beita vaxtabótum í þessu sambandi.

Að lokum ítrekaði Gylfi að kraftar ríkisins verði að beinast að þeim sem mest þurfa á aðstoðinni að halda.






































Fleiri fréttir

Sjá meira


×