Innlent

Innbrotahrina í nótt

Gissur Sigurðsson skrifar

Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið í nótt. Að minnsta kosti fimm innbrot voru framin og talsverðum verðmætum stolið.

Þjófarnir komust undan í öllum tilvikum og eftir því sem næst verður komist liggja engir sérstakir undir grun. Þessi fjöldi innbrota er vel yfir meðallagi á einum sólarhring og ef litið er nokkra daga aftur í tímann hefur verið óvenju mikið um innbrot og þjófnaði.

En skoðum nú nóttina. Fyrst var brotist inn í Melabúðina í Vesturbænum upp úr miðnætti. Þaðan stal þjófurinn talsverðu af tóbaki. Þá var brotist inn um svaladyr á einbýlishúsi í Kópavogi og þaðan stolið fartölvu.

Brotist var inn í skrifstofur afvötununarstöðvar SÁÁ að Vogi í Reykjavík, en ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið þar.

Einhverjum verðmætum var stolið í innbroti í fyrirtæki við Askalind í Kópavogi og þegar fyrsti starfsmaður mætti til vinnu í Varmárskóla í Mosfellsbæ í morgun mætti hann þjófum á harða hlaupum á útleið, með einhver verðmæti í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×