Innlent

Próflaus þjófur og hasssmyglari fyrir dómi

Rúmlega fertugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir ítrekuð þjófnaðar- og umferðarlagabrot í Reykjavík á síðasta ári. Mál á hendur manninum ásamt öðrum voru tekin fyrir í héraðsdómi í dag. Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir að keyra dópaður og próflaus gegnt rauðu ljósi sem endaði með því að hann keyrði á umferðarvitann. Maðurinn hefur áður misst bílprófið til æviloka. Einnig hefur hann verið ákærður fyrir að stela allt frá tveimur bjórflöskum upp í fartölvur og flatskjá. Þá reyndi hann að smygla hassi inn í fangelsi, falið í vasaljósi.

Í lok nóvember ók maðurinn óökuhæfri bifreið, sviptur ökuréttindum ævilangt og óhæfur til að stjórna bifreiðinni en í blóði mældis amfetamín og MDMA, um götur Reykjavíkur. Ökuferðin endaði með því að hann keyrði framan á bifreið sem var stopp á rauðu ljósi og staðnæmdist á henni og götuljósvita en á honum var rautt ljós. Bifreiðin var mikið skemmd en maðurinn flúði af vettvangi.

Í byrjun desember var hann síðan á ferðinni á bifreiðastæði við bensínafgreiðslu N-1 við Borgartún þar sem hann bakkaði á kyrrstaða bifreið og ók af vettvangi.

Fimm dögum síðar ók hann síðan bifreið á aðra bifreið á Hverfisgötu. Sem fyrr ákvað hann að láta sig hverfa af vettvangi.

Hann er einnig ákærður fyrir að hafa brotist inn á veitingastaðinn Vegamót og stolið þaðan tveimur bjórflöskum og síðan stal hann fartölvu í húsnæði fyrirtækisins Dansræktar í Lágmúla.

Þá stal hann fimm fartölvum og flatskjá að verðmæti um eina milljón króna af skrifstofum Reykjavíkurborgar. Einnig stal hann skóm að verðmæti 4.990 krónum úr verslun Hagkaupa í Holtagörðum.

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa reynt að senda refsifanga í fangelsinu Kópavogsbraut 17 tæp 13 grömm af hassi, sem hann afhenti starfsmönnum fangelsins, falin í vasaljósi.

Þess er krafist að hann verði dæmdur til refsingar, auk þess sem hann verði sviptur ökuréttindum ævilangt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×