Skoðun

Opið bréf til viðskiptaráðherra

Helgi Hermannsson skrifar um rannsókn á bankahruninu:

Íslendingar treysta ekki Íslendingum og útlendingar ekki Íslendingum. Þetta er staða sem við verðum að breyta strax. Undirstöður samfélags okkar eru í húfi. Mikill fjöldi frétta, blaðagreina og bloggfærslna eru skrifaðar þar sem bent er á hvernig hitt og þetta hefði mátt betur fara í bankahruninu. Það sem vantar eru uppbyggilegar framkvæmanlegar lausnir og frumkvæði við að koma þeim af stað.

Hér er lausn á rannsókn á bankahruninu sem er hafinn yfir allann vafa og myndi auka traust almennings og erlendra fjárfesta á innviðum Íslands. Allir eru sammála um að það þarf að rannsaka málið. Vandamálið er að kerfið á Íslandi ræður ekki við uppgjörið enda lítil reynsla af slíku hér á landi. FME og aðrar stofnanir eru ágætar en of litlar og reynslulausar. Við þurfum aðstoð þeirra sem eru bestir í faginu í heiminum, við þurfum aðstoð Bandaríska fjármálaeftirlitsins - U.S. Securities and Exchange Commission.

SEC hefur haldið uppi lögum og reglu á bandarískum fjármálamarkaði síðan 1934, á markaði sem er drifinn áfram af peningum og græðgi. SEC hefur rannsakað og fengið dæmdan fjöldann allan af fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa brotið lögin, þar á meðal: Enron, WorldCom, Michael Milken, Martha Stewart, fjölda banka sem og annarra fyrirtækja og einstaklinga. SEC býr yfir aðferðafræði, reynslu og mannskap til að fá botn í öll okkar mál.

Fyrsta skrefið var að stofna til samskipta við SEC og biðja um aðstoð. Eftir töluvert umstang fékk ég uppgefið raunverulegt netfang stjórnarformans SEC, Christopher Cox. Ég sendi honum tölvupóst og tjáði að við værum lítil þjóð í miklum vanda sem þyrfti aðstoð við að gera hreint fyrir okkar dyrum. Í svarbréfi kemur fram áhugi SEC á að skoða hugsanlega aðkomu að málinu.

Mér fannst rétt að birta þetta bréf vegna þess að því miður hef ég áhyggjur af því að ef ég hefði aðeins sent upplýsingarnar á embættismenn hefði málið horfið í kerfinu - það vantar nefnilega traust.

Ég vona að þú skoðir málið af alvöru því þetta er hugmynd að lausn á traust-vanda þjóðarinnar þegar kemur að uppgjörinu mikla. Ég hef sent allar upplýsingar á Viðskiptaráðherra og aðstoðarmann hans.

Höfundur er athafnamaður.










Skoðun

Sjá meira


×