Innlent

Sjómannasambandið leggst alfarið gegn fækkun þyrlna

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands.

„Við leggjumst alfarið gegn fækkun á þyrlum," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um hugsanlegar sparnaðaraðgerðir Landhelgisgæslunnar en mögulegt er að þyrlan TF EIR verði skilað vegna niðurskurðar. Gæslan notast við þrjár þyrlur við björgunarstörf.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði forstjóri Landhelgisgæslunnar að gæslan þyrfti að skera niður um 300 milljónir. Meðal annars kæmi til greina að skila þyrlunni til þess að mæta þeirri kröfu. Það er þó síðasta úrræðið að sögn Georgs.

„Það er óásættanlegt. Þyrlan er sjúkrabíll sjómannsins og þeir hafa engin önnur úrræði," segir Sævar og bendir á að þurfi þyrlur gæslunnar að koma skipum til aðstoðar út á rúmsjó þurfi tvær þyrlur að fara til bjargar. Á sama tíma væri engin þyrla í landi. Sævar segir að sambandið muni leggjast hart gegn aðgerðum um að fækka þyrlunum. Hann áréttar hinsvegar að hann hafi skilning á fjárhagsvandræðum gæslunnar.

„En þetta eru sársaukamörk sem ekki má fara yfir," segir Sævar sem telur frekar þörf á að fjölga þyrlum heldur en fækka þeim.


Tengdar fréttir

Forstjóri Landhelgisgæslunnar: Þarf að skera niður um 300 milljónir

Landhelgisgæslan íhugar að reka aðeins tvær björgunarþyrlur í stað þriggja í sparnaðarskyni. Miklar gengisbreytingar hafa farið verst með rekstur gæslunnar og þarf að skera niður um 300 milljónir króna á næsta ári. Forstjóri gæslunnar segir ennþá ekkert ákveðið en fækkun þyrla yrði einn af síðustu kostum öryggisins vegna.

Landhelgisgæslan hyggst skila björgunarþyrlu

Landhelgisgæslan mun aðeins reka tvær björgunarþyrlur á næsta ári og verður minni þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, skilað samkvæmt heimildum Víkurfrétta úr Stjórnarráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×