Erlent

Samþykki nú nánast öruggt

Harry Reid leiðtogi meirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjanna.
fréttablaðið/AP
Harry Reid leiðtogi meirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjanna. fréttablaðið/AP

Demókratar í öldungadeild Bandaríkjanna telja nú nánast öruggt að frumvarp um nýja skipan heilbrigðistrygginga verði samþykkt í deildinni fyrir jól.

Tveir óháðir þingmenn greiddu atkvæði með demókrötum um málsmeðferð snemma í gær, og var þar með komið í veg fyrir að repúblikanar geti haldið uppi málþófi til að tefja frumvarpið svo lengi sem þeim sýnist.

Verði frumvarpið samþykkt í öldungadeild á þingið samt eftir að samræma það frumvarpi um sama mál sem fulltrúadeild þingsins samþykkti í nóvember.

Töluverður munur er á frumvörpum deildanna. Meðal annars eru ákvæði um fóstureyðingar mun strangari í frumvarpi fulltrúadeildarinnar en í þessu frumvarpi sem öldungadeildin hefur nú til meðferðar.

Endanleg útgáfa frumvarpsins verður síðan send Barack Obama Bandaríkjaforseta til undir­ritunar.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja nánast öllum Bandaríkjamönnum sjúkratryggingar, sem hefur verið eitt helsta baráttumál demókrata í Bandaríkjunum áratugum saman.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×