Erlent

Hætt við að gefa út sakamálasögu af ótta við múslima

Óli Tynes skrifar

Bókaforlag í Þýskalandi hefur hætt við að gefa út sakamálasögu um heiðursmorð, þar sem hún gæti reitt múslima til reiði.

Heiðursmorð eru tíð í sumum múslimaríkjum. Og sumir múslimar sem búa á Vesturlöndum hafa tekið þenna sið með sér þangað. Fjölmörg slík morð hafa til dæmis verið framin á Norðurlöndum.

Fornarlömbin eru yfirleitt ungar konur sem lenda í ástarsamböndum sem eru fjölskyldunni ekki að skapi, eða vilja ekki giftast manni sem fjölskyldan velur fyrir þær. Þá er það talin skylda föður eða bræðra að myrða hana.

Slík morð hafa einnig verið framin í Þýskalandi og rithöfundurinn Gabriele Brinkman hefur skrifað um þetta sakamálasögu.

Neitaði að breyta handritinu

Droste forlagið var hinsvegar á báðum áttum þegar handritið barst. Það fékk sérfræðing í islamstrú til þess að lesa það yfir. Sérfræðingurinn komst að þeirri niðurstöðu að bókin gæti angrað múslima.

Brinkmann var þá beðin um að yfirfara og milda orðalag sitt. Því neitaði hún. Þá var ákveðið að hætta við útgáfu bókarinnar.

Í viðtali við netútgáfu Der Spiegel vísaði útgefandinn Felix Droste til öryggis síns og fjölskyldu sinnar.

Hann sagði að frá því fárið varð út af dönsku myndunum af Múhameð spámanni sé öllum mönnum ljóst að menn leggi sig í lífshættu með því að móðga múslima með orðum eða myndum.

Angela Merkel reið

Árið 2006 kaus þýska óperan að taka óperuna Idomeneo eftir Mozart af dagskrá. Ástæðan var sú að í verkinu var sena þar sem sjá mátti afskorin höfuð Múhameðs, Jesús, Búdda og fleiri merkra manna.

Óttast var að það myndi vekja reiði múslima. Ákvörðunin um að taka óperuna af dagsrká vakti hinsvegar reiði Angelu Merkel, kanslara sem kallaði hana sjálfsritskoðun óttans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×