Erlent

Kjötætum bent á að rifa seglin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kjöt.
Kjöt.

Þriðjungssamdráttur kjötneyslu stórbætir heilsuna og dregur auk þess úr mengun segja breskir og ástralskir vísindamenn.

Rannsókn vísindamannanna hefur leitt í ljós að fækka mætti dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma um 17 prósent ef helstu kjötátsþjóðir heimsins drægju úr kjötáti sem nemur þriðjungi. Þetta skýrist af áhrifum dýrafitunnar á hjarta og æðakerfi. Ekki er alveg eins ljóst hvernig þetta tengist mengun en skýringin þó mjög rökræn þegar hún er dregin fram í dagsljósið.

Þær skepnur sem kjöt fæst almennt af, einkum nautgripir, dæla metangasi út um báða enda daginn út og inn. Þessi útblástur nemur núna 18 prósentum af losun allra gróðurhúsalofttegunda heimsins eða nær fimmtungi. Þrátt fyrir heimskreppu eru sum ríki heimsins í bullandi uppsveiflu, svo sem Kína, þar sem rúmur milljarður manna heimtar ekki bara bíl á nánast hvert heimili heldur einnig ókjör af kjöti í staðinn fyrir hrísgrjón og annað dæmigert hollmeti sem vex á ökrum.

Fari sem horfir, reikna sérfræðingar út, mun þessi nýja og síaukna eftirspurn auka griparæktun sem nemur 85 prósentum fyrir árið 2030 með tilheyrandi gaslosun. Oft sé því þörf en nú nauðsyn að snúa vörn í sókn og draga úr kjötneyslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×