Innlent

Hvalur 8 í slipp eftir 20 ára stopp

Gamlir hvalskutlarar flykktust niður á Reykjavíkurhöfn í dag þegar Hvalur 8 var tekinn upp í slipp til að undirbúa stórhvalaveiðar í sumar.

Hann hefur legið óhreyfður við bryggju frá árinu 1989, en nú loksins eftir tuttugu ára bið, sér Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, fram á verkefni fyrir Hval 8. Hvalbáturinn, sem orðinn er meira en sextíu ára gamall, var dreginn upp í slipp í dag. Það er búið að gefa út kvóta á langreyði og gera þarf skipið klárt fyrir vorið.

Kristján segir skipið í finu standi og gróðurinn á botinum hafi reynst mun minni en hann bjóst við. Næstu þrjár vikur verður skipið skrapað og málað upp á nýtt.

Það vakti athygli að margir gamlir hvalfangarar voru mættir til að fylgjast með og stóðust sumir ekki mátið að klifra um borð. Og margir þeirra vonast til að fá pláss í sumar.

Kristján segir að tveir bátar stundi veiðarnar í sumar, Hvalur 8 og Hvalur 9.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×