Erlent

Austantjaldskaggarnir seljast sem heitar lummur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Trabant - lúxusútgáfan.
Trabant - lúxusútgáfan.

Safnarar keppast um að komast yfir gamlar austantjaldsbifreiðar á borð við Trabant, Lödu og Skóda.

Hver man ekki eftir gamla góða Skódanum á íslenskum vegum, bíl sem nánast eingöngu virtist koma í appelsínugulum lit og hafði vélina í skottinu. Þá má einnig minnast Lödunnar sígildu, hins pólska Fiats 125 sem gerði ekki annað en að bila og síðast en alls ekki síst tveggja strokka steingráa Trabantsins sem bjó yfir heilum 26 hestöflum og yrði væntanlega eftirsóttur gripur nú á dögum miðað við verðlagningu eldsneytis.

Bílasafnarar um allan heim hugsa sig ekki um tvisvar bjóðist þeim að kaupa forngripi á borð við þá sem hér er lýst. Talsmaður Trabant-klúbbs Ungverjalands segir í viðtali við Reuters að menn séu nánast reiðubúnir að láta útlim fyrir Trabant í toppstandi en framleiðslu Trabantsins austurþýska var hætt um svipað leyti og Berlínarmúrinn féll. Þannig hafi einn félagi í klúbbnum nýverið greitt eina og hálfa milljón forinta, sem samsvara rúmum milljón krónum, fyrir Trabant sem leit út eins og nýr.

Ungverjar líta til sovétáranna með ljúfsárum minningum, að minnsta kosti hvað bíla snertir. Einn félagi í bílaklúbbnum segir frá því þegar hann pantaði sér glænýja Lödu snemma á níunda áratugnum. Framleiðandinn í Sovétinu lofaði henni eftir fimm ár en hún kom eftir átta, tvöfalt dýrari en lofað hafði verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×