Viðskipti innlent

Halvorsen: Okkur er mikið í mun að hjálpa Íslandi

Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs ræddi málefni Íslands m.a. í fjárlagaræðu sinni á norska Stórþinginu. Halvorsen segir að Norðmönnum sé mikið í mun að hjálpa Íslandi í þeim þrengingum sem íslenska þjóðin gengur í gegnum.

„Við höfum einnig gefið fyrirheit um tvíhliða lán til Íslands og Lettlands, nágrannaríkja okkar sem hafa orðið sérlega illa úti í efnhagskreppunni," segir Halvorsen. „Okkur er mikið í mun að hjálpa Íslandi í þeim erfiðum aðstæðum sem landið er í. Noregur hafði forgöngu snemma um verulegan stuðning við Ísland í gegnum norrænt samstarf."

Halvorsen ræddi síðan um lánaupphæðina en norska lánið er 480 milljónir evra í sameiginlegum norrænu lánum upp á 1,8 milljarða evra.

„Við leggjum mikla áherslu á að Norðurlöndin styðji Ísland með þessum hætti. Bæði Noregi og Íslandi er akkur í að norrænt samstarf styrkist og að stuðningurinn við Íslendinga fari fram í krafti alþjóðlegs samstarfs," segir Halvorsen.

Í ræðunni gat Halvorsen þess einnig að Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs hafi í síðustu viku sent bréf til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra þar sem hann staðfesti norska lánið innan hins norræna ramma.

„Mér er eins og forsætisráðherranum umhugað um að önnur Norðurlönd styðji viðleitni íslenskra stjórnvalda til þess að endurreisa efnahagslíf sitt og stuðla að því að koma á eðlilegum tengslum við umheiminn. Við munum halda áfram að fylgjast náið með þróuninni á Íslandi," segir Halvorsen.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×