Innlent

Biðlisti eftir föstum básum í Kolaporti

Fjöldi manns leggur leið sína í Kolaportið um hverja helgi til að gera góð kaup, sýna sig og sjá aðra. Fréttablaðið/Valli
Fjöldi manns leggur leið sína í Kolaportið um hverja helgi til að gera góð kaup, sýna sig og sjá aðra. Fréttablaðið/Valli

viðskipti Stóraukin ásókn er í sölupláss í Kolaportinu í Reykjavík, að sögn Gunnars Hákonarsonar, framkvæmdastjóra Kolaportsins. Hann segir þó erfitt að leggja tölulegt mat á aukninguna, þar sem alla jafna hafi verið skipað í öll pláss. Hann finni þó fyrir því að pláss sem losna séu tekin mun fyrr en áður.

Flestir sölubásarnir í Kolaportinu eru leigðir til lengri tíma, en svo er jafnframt hægt að leigja pláss yfir helgi eða daglangt. „En við erum jú með takmarkað magn af básum og núna fyllist þetta mun hraðar.“ Þá er allangur biðlisti eftir því að komast í sölupláss til lengri tíma, en Gunnar telur minna að byggja á lengd hans. „Þegar til kemur er svo ekki nema einn af tíu sem hefur skráð sig sem vill taka plássið. Fólk segist þá hafa hætt að gera ráð fyrir því að fá úthlutað.“

Alla jafna er hægt að panta sölupláss mánuð fram í tímann, en á vef Kolaportsins kemur fram að allir sölubásar séu upppantaðir út nóvembermánuð.

Þótt vera kunni að rekja megi aukna ásókn í sölupláss í Kolaportinu til efnahagsástandsins segir Gunnar ekki hægt að merkja breytingu á þeim varningi sem fólk hefur til sölu.

Kolaportið var fyrst opnað árið 1989 í bílastæðageymslu bílastæðasjóðs í Seðlabankanum, en starfsemin flutti í neðstu hæð Tollhússins við Tryggvagötu í Reykjavík árið 1994.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×