Viðskipti innlent

Skuldabréf gamla Landsbankans lækka eftir samkomulag

Landsbankinn Fjárfestar telja nokkra áhættu felast í kaupum á skuldabréfum Landsbankans. Áttatíu og fimm ára gamalt bréf bankans var boðið til sölu á erlendum skuldabréfamarkaði í vikunni.
Landsbankinn Fjárfestar telja nokkra áhættu felast í kaupum á skuldabréfum Landsbankans. Áttatíu og fimm ára gamalt bréf bankans var boðið til sölu á erlendum skuldabréfamarkaði í vikunni.

Virði skuldabréfa gamla Landsbankans hefur lækkað eftir að íslensk stjórnvöld, skilanefnd Landsbankans og Nýi Landsbankinn skrifuðu undir samkomulag á mánudag um að tryggja að um níutíu prósent fáist upp í forgangskröfur gamla bankans. Kröfur vegna Icesave eru fremstar í röðinni og bera aðrir kröfuhafar minna úr býtum.

Líkt og áður hefur verið greint frá er líflegur markaður með skuldabréf Glitnis og Kaupþings og hafa áhættufjárfestar hagnast mjög á viðskiptunum. Lítil velta er með skuldabréf Landsbankans.

Skuldabréf Landsbankans urðu næsta verðlaus eftir þrot hans fyrir ári. Fyrir um hálfum mánuði bundu fjárfestar vonir við að á bilinu fimm til sjö prósent af kröfum myndu skila sér. Eftir því sem næst verður komist benda nýjustu tölur til að heimtur hafi lækkað niður í rúm fjögur prósent og ekki er útilokað að þær lækki frekar.

Skuldabréf Glitnis og Kaupþings hafa hækkað lítillega á sama tíma en spákaupmenn búast við á bilinu 23 til 25 prósenta heimtum.

Helst eru það bandarískir spákaupmenn sem keypt hafa bréfin. Ekki er útilokað að ástæðan fyrir því sé sú að þeir hyggist geyma hagnað á milli uppgjörstímabila.jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×