Innlent

Fíladelfíusöfnuðurinn: Samkynhneigðir eru víst velkomnir

Kirkja hvítasunnukirkjunnar.
Kirkja hvítasunnukirkjunnar.

Hvítasunnukirkja Fíladelfíu hefur sent frá sér tilkynningu vegna ásakanna tónlistarmannsins, Friðriks Ómars Hjörleifssonar, þar sem hann hélt því fram að samkynhneigðir væru ekki velkomnir í gospelkór safnaðarins.

Tilkynningin birtist hér orðrétt:

Í kjölfar þeirrar umræðu sem fram hefur farið í fjölmiðlum að undanförnu er ástæða til að útskýra afstöðu Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu til samkynheigðra. Samkynhneigðir eru velkomnir í Fíladelfíu eins og allir aðrir. Í Fíladelfíu er fólki ekki mismunað eftir kynhneigð eða sett á bása með einum eða öðrum hætti. Þetta er opinber afstaða kirkjunnar og grundvallast hún á náungakærleika og umburðarlyndi því sem Jesús Kristur boðaði og birtist í heilagri ritningu.

Gospelkór Fíladelfíu er kirkjukór sem syngur við guðsþjónustur safnaðarins. Meðlimir í Gospelkór Fíladelfíu, eins og aðrir sem gegna þjónustu í kirkjunni, eru virkir safnaðarmeðlimir sem trúa á gildi heilagrar ritningar.

Jólatónleikar Fíladelfíu hafa verið haldnir til fjölda ára og verið sendir út í Sjónvarpinu í um áratug. Margir gestir hafa komið fram á tónleikunum í gegnum árin og eru sumir þeirra landsþekktir söngvarar. Tónlistarstjórar Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu hafa haft veg og vanda að skipulagningu, lagavali og vali á þeim gestum sem fram hafa komið. Valið fer fram á faglegum forsendum. Jólatónleikarnir gera Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu kleift að styrkja þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu og undanfarin ár hafa Geðhjálp, Hjálpræðisherinn, Kaffistofa Samhjálpar og þúsundir einstaklinga hlotið styrki úr sjóðnum.

Stjórn Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu harmar rangfærslur fjölmiðla þess efnis að Friðrik Ómari hafi verið meinað að koma fram á jólatónleikum Fíladelfíu. Það skal áréttað að beiðni þess efnis hefur aldrei komið inn á borð

stjórnar Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu.

Fyrir hönd stjórnar Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu,

Vörður Leví Traustason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×