Erlent

Dúbaí gæti hrundið af stað nýrri kreppu

Kaldranaleg glæsiveröld Uppbyggingin í Dúbaí undanfarin ár hefur einkennst af gríðarlegum metnaði og gegndarlausu óhófi.Nordicphotos/AFP
Kaldranaleg glæsiveröld Uppbyggingin í Dúbaí undanfarin ár hefur einkennst af gríðarlegum metnaði og gegndarlausu óhófi.Nordicphotos/AFP

Fréttir af gríðarlegri skuldsetningu og hugsanlega yfirvofandi efnahagshruni í Dúbaí ollu titringi í viðskiptalífi um heim allan. Ótti hefur vaknað um að vandræðin í Dúbaí hafi keðjuverkandi áhrif og endi í nýrri heimskreppu.

Dubai World er fyrirtækjasamsteypan sem hefur verið í fararbroddi uppbyggingarinnar í Dúbaí síðustu árin.

Sú uppbygging hefur einkennst af bæði gríðarlegum metnaði og gegndarlausu óhófi sem vart á sér neina hliðstæðu. Reistar hafa verið glæsibyggingar, háhýsi og nýir eyjaklasar búnir til við ströndina. Stærsta hús heims er risið þar, og fylgja möguleikar á að hækka það ef aðrir taka upp á að byggja hærra.

Öll þessi uppbygging er að stórum hluta framkvæmd fyrir lánsfé, sem reynst hefur erfitt að standa í skilum með. Litlar tekjur eru af nýju glæsimannvirkjunum og olíuauðurinn getur ekki bjargað Dúbaí, því hann er minni þar en víðast hvar í arabaheiminum.

Dubai World skuldar 60 milljarða dala og vill fá hálfs árs frest til að gera upp sín mál. Þegar sú beiðni barst voru helstu bankar heims ekki lengi að lækka lánshæfismat annarra stórfyrirtækja í Dúbaí. Lækkun varð í kauphöllum víða um heim.

Veruleg hætta þykir á að skuldirnar fáist aldrei greiddar nema kannski að hluta. Sextíu milljarða skuld Dubai World er stór hluti allra skulda Dúbaí erlendis, því þær nema í heild áttatíu milljörðum dala.

Tapið myndi lenda á stórum bönkum erlendis. Bresku bankarnir HSBC Holdings og Standard Chartered gætu tapað samtals 788 milljónum dala. Þriðji stærsti banki Japans, sem heitir Sumitomo Mitsui Financial Group, gæti sömuleiðis lent í vandræðum, því hann á einnig hundruð milljónir dala hjá ofurskuldsettum fyrirtækjum í Dúbaí.

Byggingafyrirtæki í Japan, Ástralíu og Suður-Kóreu gætu einnig farið illa út úr þessu, því þau hafa verið fengin til að reisa allar nýju byggingarnar í Dúbaí.

Verði stórir bankar víða um heim fyrir áfalli vegna hruns í Dúbaí má búast við að þeir þurfi að halda að sér höndum í lánveitingum, sem gæti þýtt nýja lánsfjárkreppu, líka þeirri sem olli hruninu fyrir rúmu ári.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×