Erlent

Ár frá árásunum á Mumbai

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Indverjar minnast þess nú að í dag er eitt ár liðið frá því að pakistanskir hryðjuverkamenn réðust á nokkur hótel í borginni Mumbai og urðu tæplega 200 manns að bana.

Fáir íbúar Mumbai munu nokkurn tímann gleyma fjögurra daga umsátursástandi sem hófst með því að pakistanskir hryðjuverkamenn úr röðum samtakanna Lashkar-e-Taiba gerðu árás á brautarstöð og hótelin Taj Mahal og Oberoi Trident ásamt fleiri stöðum. Árásarmennirnir voru tíu og höfðu skipulagt ódæðið vandlega, til dæmis var ljóst að þeir gjörþekktu hvern krók og kima í hótelunum. Eftir umsátur sem varði á fjórða dag réðst sérsveit indverska hersins, Svörtu kettirnir, til inngöngu í Taj Mahal-hótelið og stráfelldi þá sem enn lifðu af hryðjuverkamönnunum utan einn, Mohammad Ajmal Kasab, en réttarhöld yfir honum standa enn og má hann búast við dauðadómi verði hann sekur fundinn.

Hryðjuverkamennirnir einbeittu sér helst að því að drepa hótelgesti frá Vesturlöndum og var breski skipajöfurinn Andreas Liveras meðal fórnarlamba þeirra. Hann var skotinn til bana aðeins nokkrum mínútum eftir að hann lýsti ástandinu í beinni útsendingu breska ríkisútvarpsins BBC gegnum síma. Friðarviðræður Indverja og Pakistana hrundu eins og spilaborg eftir atburðinn og indverski forsætisráðherrann Manmohan Singh, sem nú er staddur í heimsókn í Bandaríkjunum, sagði að pakistönsk yfirvöld gætu gert mun meira til að koma lögum yfir þá skipuleggjendur árásarinnar sem enn ganga lausir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×