Innlent

Blæs lífi í laskaðan markað

Gylfi Magnússon Viðskiptaráðherra hefur ágæta tilfinningu fyrir skráningu fyrirtækja sem bankarnir hafa tekið yfir. Fréttablaðið/GVA
Gylfi Magnússon Viðskiptaráðherra hefur ágæta tilfinningu fyrir skráningu fyrirtækja sem bankarnir hafa tekið yfir. Fréttablaðið/GVA

Skráning fyrirtækja sem bankarnir hafa tekið yfir að öllu leyti eða að hluta getur verið ágæt lausn, að sögn Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að viðræður hafi átt sér stað á milli Kauphallarinnar og bankanna um skráningu fyrirtækjanna og hugnist bankastjórum bankanna þriggja það. Svo kann að fara að sjö fyrirtæki sem þeir hafa tekið yfir verði sett á markað á næsta ári.

„Ég er alveg hlynntur þessu,“ segir Gylfi og bendir á að markaðsvæðing fyrirtækjanna sé mikilvægur hluti af því að endurvekja hlutabréfamarkað hér og koma heilbrigðum fjármálamarkaði í gang á ný. „Hann hefur verið afar laskaður, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég myndi fagna því ef þetta verður hægt að gera í einhverjum mæli og tel reyndar að þetta geti verið ágæt leið í ýmsum tilvikum. Það hentar ekki mjög smáum fyrirtækjum en getur verið gott fyrir stærri rekstrarfélög,“ segir hann.

Spurður hvort tímabært sé að skrá fyrirtæki á markað svo stuttu eftir fjármálahrunið segir Gylfi svo vera: „Ég hef trú á því ef vel er að málum staðið. Verið er að gera ýmsar breytingar á regluverkinu, bæði um fjármálamarkaði og hlutafélagalöggjöfina. Það ætti að hjálpa til. Ég hef ágæta tilfinningu fyrir því að þetta geti gengið.“ - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×