Erlent

Vitnar um samning við mafíuna

 Mikil öryggisgæsla var við réttarhöldin í Ítalíu í gær. Gaspare Spatuzza bar vitni hulinn hvítu tjaldi. Fréttablaðið/AP
Mikil öryggisgæsla var við réttarhöldin í Ítalíu í gær. Gaspare Spatuzza bar vitni hulinn hvítu tjaldi. Fréttablaðið/AP

Forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, er sagður hafa gert samning við mafíuna á tíunda áratug síðustu aldar. Þetta kom fram í framburði dæmds mafíósa, Gaspare Spatuzza, í réttarhöldum sem fram fóru á Ítalíu í gær.

Berlusconi hefur borið af sér ásakanirnar.

Spatuzza er vitni saksóknara í áfrýjunarréttarhöldum sem fram fara í máli Marcello Dell‘Utri, náins pólitísks samstarfsmanns Berlusconis. Sá var árið 2004 dæmdur til níu ára fangelsisvistar fyrir tengsl sín við mafíuna.

Berlusconi hefur ekki verið kallaður til að bera vitni við réttarhöldin.

Spatuzza, sem situr af sér lífstíðar­dóm fyrir aðild að nokkrum morðum, sagði fyrir rétti í gær að árið 1993 hefði yfirmaður hans, Giuseppe Graviano, sagt honum að mafían hefði gert samkomulag við Berlusconi sem hafa myndi í för með sér óskilgreindan „ávinning“ fyrir mafíuna. Fjölmiðlakóngurinn Berlusconi hóf feril sinn í stjórnmálum nokkrum mánuðum síðar og komst til valda í fyrsta sinn sem forsætisráðherra í kosningunum árið 1994.

Ávæningur af ásökunum Spatuzzas hefur verið í umræðunni í nokkra daga.

Bæði Berlusconi og Dell‘Utri hafa sagt þær vera tilhæfulausar og fáranlegar og neitað öllum tengslum við skipulagða glæpastarfsemi.

oka@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×