Innlent

Ísland ekki í áhættuflokk að óbreyttu

kynning Aðstæður ættu að skapast fyrir öfluga kynningu á Íslandi snemma á næsta ári segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Fréttablaðið/Anton
kynning Aðstæður ættu að skapast fyrir öfluga kynningu á Íslandi snemma á næsta ári segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Fréttablaðið/Anton

Lánshæfismat íslenska ríkisins mun að óbreyttu geta haldist í svokölluðum fjárfestingaflokki hjá matsfyrirtækjunum, og sleppa við að lenda í áhættuflokki versni ástandið ekki. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga á Grand hóteli í gær.

Már benti á að í nýjasta mati sem erlent matsfyrirtæki hefur gefið út eru horfur hér á landi sagðar stöðugar. Út frá því megi búast við að lánshæfismatið lækki ekki frekar komi ekkert óvænt upp á.

Erlendir fjármagnsmarkaðir eru enn lokaðir ríkinu og íslenskum fyrirtækjum, en Már sagði Seðlabankann sjá vísbendingar um að það gæti verið að breytast. Mögulega muni slíkir markaðir brátt opnast á ný, hugsanlega þegar líða taki á næsta ár.

Aðstæður ættu að skapast snemma á næsta ári fyrir því að ríkið fari í öfluga kynningu á landinu á erlendum mörkuðum, sagði Már. Þá sé mögulegt að ríkið ryðji leiðina á lánsfjármörkuðum með því að taka lán til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að fylgja í kjölfarið.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion, áður Nýja Kaupþings, sagði mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að erlendir lánsfjármarkaðir opnist, og líklega muni það gerast í nokkrum skrefum. Mikilvægt sé að ríkið ryðji brautina, en engu aðsíður sé ljóst að kjörin verði „heldur ömurleg“ til að byrja með. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×