Viðskipti innlent

Mikið framboð af íbúðahúsnæði veldur þrýstingi til lækkunnar

Hagfræðideild Landsbankans segir að um þessar mundir sé mikið framboð af íbúðahúsnæði og því þrýstingur til frekari lækkunar íbúðaverðs. Þetta kemur fram í Hagsjá deildarinnar þar sem rætt er um vísitölu byggingarkostnaðar.

Vísitala byggingarkostnaðar er mæld með hliðsjón af byggingarkostnaði „vísitöluhúss", fjölbýli í Reykjavík. Samanburður við fjölbýlisþátt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá Fasteignaskrá Íslands gefur því einhverja mynd af arðsemi í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu.

Í Hagsjánni segir að eftir kjöraðstæður frá miðju ári 2004 til miðs árs 2006 hafa aðstæður byggingaraðila súrnað töluvert. Byggingarkostnaður hefur rokið upp á sama tíma og íbúðaverð hefur lækkað.

Á meðan arðsemi jókst varð mikil fjárfesting í íbúðahúsnæði. Afleiðing þess er að um þessar mundir er mikið framboð af íbúðahúsnæði og því þrýstingur til frekari lækkunar íbúðaverðs

Byggingarkostnaður hækkaði um 0,65% frá ágúst til september samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands. Vísitalan er mæld um miðjan mánuðinn og gildir til verðtryggingar í október. Eins og verið hefur undanfarið eru það efnisliðir sem eru meginvaldar svo mikillar hækkunar en vinnuliðir haldast að þessu sinni óbreyttir annan mánuðinn í röð. Þá hækka opinber gjöld um rúmt prósent.

Þróunin undanfarna tólf mánuði sýnir ennfremur að vinnuliðir draga aftur af hækkun vísitölunnar sem mælist nú 10,6%. Af undirliðum hefur pípulögn hækkað mest undanfarna tólf mánuði, um 28,3%, og dúkalögn þar á eftir, eða um 27,5%. Þetta eru jafnframt þeir liðir sem hækka langmest á milli mánaða í mælingu Hagstofunnar, um 4-5%, meðan aðrir liðir hækka um minna en 1%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×