Lífið

Frá Seyðisfirði til Havarí

Svavar og Berglind standa vaktina í Havarí.FréttablaÐið/Valli
Svavar og Berglind standa vaktina í Havarí.FréttablaÐið/Valli

„það var gríðarlegur þrýstingur frá poppsenunni í Reykjavík að fá okkur aftur í bæinn, svo það var bara opnuð búð til að hafa okkur í,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson í hljómsveitinni Skakkamanage. Hann og Berglind Häsler, kona hans, hafa búið á Seyðisfirði um nokkra hríð en eru flutt aftur á mölina til að stýra nýrri verslun, Havarí. „Seyðisfjörður er náttúrulega algjört unaðspleis og við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur, en svona er þetta: Ævintýrið er búið í bili.“

Havarí er í Austurstræti 6, á milli Gyllta kattarins og Shalimar. Verslunin er samstarfsvettvangur fjögurra fyrirtækja á sviði tónlistar og hönnunar, Kimi Records, Borgin hljómplötur, Gogoyoko og Skakka­popp. „Þetta verður besta búðin,“ segir Svavar. „Þarna verður til tónlist, fatnaður, hönnun, list og bara það sem okkur dettur í hug. Það er svið í búðinni sem hægt verður að troða upp á. Svo verður bara dansað og tjúttað. Það er gott að hafa svona lókal yfir Réttir og Airwaves og svo í jólaösinni. Eftir jól verður bara metið hvernig gekk og hvort við pökkum saman eða höldum áfram.“

Havarí verður formlega opnuð í dag kl. 13. Reggígeltirnir í Hjálmum troða upp og hefja forsölu á nýju plötunni IV, sem kemur út á mánudaginn. Þá verða léttar karíba-veitingar í boði, sem og ýmis tilkippileg tilboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×