Skoðun

Stöndum vörð um grunnskólann

Örfá ár eru frá því að við Íslendingar náðum því takmarki að kennslustundir grunnskólanema væri jafnmargar og í nágrannalöndum okkar. Því kemur það eins og köld vatnsgusa að sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni geri það að tillögu sinni að fækka þeim aftur. Á liðnum árum hafa kannanir sýnt að nemendur hér á landi standa jafnöldrum sínum að baki í nokkrum námsgreinum. Eitt hafa þó aðrar þjóðir talið okkur til tekna. Það er vægi list- og verkgreina í menntun. Vægið hefur þó farið minnkandi því ekki er langt síðan smíðar, heimilisfræði, textíl- og myndmennt urðu valfög í efstu bekkjum. Það er líklegt að ef grunnskólanám verður skert gerist það á kostnað list- og verkgreina. Við þessar aðstæður er eðlilegt að spyrja hvort almenningur vilji fækkun kennslustunda og ef svo er á hvaða námsgreinum það eigi að bitna.

Þegar horft er yfir þá sviðnu jörð sem hugmyndfræði nýfrjálshyggjunnar og útrásarvíkingarnir skildu eftir sig er ekki margt sem stendur óskaddað. Menning okkar sem birtist í listaverkum og hönnun heldur þó sinni reisn. Þeir einstaklingar sem skara framúr á þessu sviði vekja stolt í brjósti okkar. Jarðvegurinn sem þeir hafa sprottið úr er góð list- og verkgreinakennsla. Margur nemandi sem ekki finnur sig í lesgreinum blómstrar í list- og verkgreinum. Sérstaklega á þetta við um þá sem glíma við lesblindu því þar gefst þeim færi á að nýta hæfileika sína til þrívíðrar hugsunar og sköpunar.

Kennslustundum verður ekki fækkað nema með lagabreytingu. Slíkt er ekki í anda jöfnuðar og félagshyggju sem ríkisstjórnin stendur fyrir.

Fækkun kennslustunda býður upp á þann ójöfnuð að þeir ríku kaupi forskot fyrir sín börn. Þess konar samfélag viljum við ekki. Stytting skóladags þýðir að börn og unglingar eru ein lengri tíma dags en nú er. Það býður ýmsum hættum heim. Ef sú kynslóð sem nú er að alast upp á að koma ósködduð út úr kreppunni þurfum við að huga betur að hagsmunum hennar.

Það er skylda okkar að hún þurfi ekki að tapa menntunartækifærum vegna þeirrar hugmyndafræði sem ríkisstjórn sjálfstæðimanna og framsóknar iðkaði.

Höfundur er kennari og varaborgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×