Skoðun

Samstaða - um hvað?

'Nær allir leiðtogar þjóðarinnar hafa í áramótahugleiðingum sínum lagt áherslu á að nú þurfi þjóðin að standa saman.

Grundvallarforsenda samstöðu smærri eða stærri hópa, hvað þá heillar þjóðar, er þó nú sem ætíð að öllum sé ljóst um hvað þeir ætla að standa saman.

Væntanlega þarf samstaðan ekki síst að snúast um að deila minnkandi þjóðarköku þannig að hún dugi þjóðinni til lífsviðurværis í víðum skilningi.

Þjóðarsátt verður því að byggjast á að þeir sem nú bera meira úr býtum taki á sig þyngstu byrðar skerðingar og sú stefna hefur þegar komið fram allvíða, nú síðast með lækkun launa alþingismanna í 520 þús. kr á mánuði.

Vitað er að völd og ábyrgð alþingismanna er mikil og því eðlilegt að spurt sé hvort einhverjir og þá hverjir eigi að hafa hærri laun en þeir. Hversu margir af starfsmönnum ríkisstofnana, sveitarfélaga og fjármálastofnana eru í dag ofan við þessa viðmiðun? Í framhaldi af því má spyrja, hvað um ýmsa útselda þjónustu, er nú t.d. sanngjarnt að greiða 3.500 kr. fyrir klippingu? Verða ekki hvers kyns eftirlitsiðnaður og þjónustustarfsemi að endurskoða gjáldskrár sínar? Er ásættanlegt að slíkir aðilar selji hverja vinnustund á 15-20.000 kr?.

Því miður eru miklar líkur á að nú verji hver sitt með kjafti og klóm óháð þörfum þjóðarinnar fyrir hófsemi og réttlæti og breytingar gerist því hægt nema stjórnendur sýni styrk og festu.

Enginn dregur þörf á samstöðu þjóðarinnar í efa en leiðtogarnir verða að gera gleggri grein fyrir í hverju sú samstaða á að felast.

Höfundur er fyrrverandi formaður Bændasamtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×