Erlent

Sagði frelsið vera styrk Bandaríkjanna

Barack Obama ávarpaði háskólanema í Shanghaí í Kína í gær. Forsetinn er nú á ferðalagi um Asíu
fréttablaðið/AP
Barack Obama ávarpaði háskólanema í Shanghaí í Kína í gær. Forsetinn er nú á ferðalagi um Asíu fréttablaðið/AP

„Við reynum ekki að troða neinu stjórnskipulagi upp á nokkra þjóð,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti við háskólanema í Shanghaí. Hann er nú staddur í Kína, og hefur lagt á það áherslu í ferðinni að Bandaríkjamenn hafi engan áhuga á að hefta vöxt Kína með nokkrum hætti.

Í ræðu sinni í Shanghai lagði hann hins vegar áherslu á mikilvægi tjáningarfrelsis og annarra mannréttinda, en tók jafnframt fram að þetta væru ekki sérbandarískar reglur heldur almenn réttindi.

„Ég átta mig á því að ólík lönd hafa ólíkar hefðir,“ sagði hann, en bætti því við að í Bandaríkjunum sé litið á tjáningarfrelsið og óheftan Internetaðgang sem styrk en ekki veikleika.

Obama hélt síðan til Peking þar sem Xi Jinping varaforseti tók á móti honum. Síðan hitti hann Hu Jintao forseta. Þeir snæddu saman kvöldverð í gær og ætla að hittast aftur í dag.

Á fundi þeirra voru viðskipti, efnahagsmál og loftslagsmál aðalumræðuefnið. Obama sagði meðal annars að nú, þegar vegur Kína fer vaxandi í heiminum, deili landið „byrði leiðtogahlutverksins“ með Bandaríkjunum.

„Ég skal segja ykkur það, að önnur lönd í heiminum munu bíða eftir okkur,“ sagði hann.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×