Innlent

Fullur vildi lengri opnunartíma

Á miðvikudaginn var óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Akranesi vegna karlmanns sem var ölvaður og mjög æstur fyrir utan Vínbúðina rétt eftir lokun. Var hann mjög reiður starfsfólki Vínbúðarinnar en hann taldi að starfsmenn hefðu lokað of snemma. Samkvæmt lögreglunni liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort sé réttara, klukka Vínbúðarinnar eða úr karlmannsins.

Þá var rólegt um liðna helgi á Akranesi. Þó þurftu lögreglumenn að aðstoða vegna óláta og slagsmála við skemmtistaðinn Breiðina aðfaranótt laugardags. Þar voru tveir aðkomumenn að angra heimamenn sem voru „að sjálfsögðu saklausir" eins og lögreglan orðar það.

Lögreglunni bárust svo tilkynningar um að skemmdir hefðu verið unnar á lyftara, dráttarvél og bifreið á Ægisbraut. Í öllum tilvikum voru rúður brotnar en ekkert var tekið. Virðist sem að eingöngu hafi skemmdarfýsn legið að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×