Erlent

Olmert vildi landtökusvæðin

Mahmoud Abbas Ítrekaði í gær kröfur um að Austur-Jerúsalem yrði höfuðborg Palestínu.fréttablaðið/AP
Mahmoud Abbas Ítrekaði í gær kröfur um að Austur-Jerúsalem yrði höfuðborg Palestínu.fréttablaðið/AP

Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, bauð Palestínumönnum 5,8 prósent af landsvæði Ísraels, bæði við Gasasvæðið og Vesturbakkann, í skiptum fyrir 6,3 prósent af landsvæði Vesturbakkans.

Á svæðunum sem Olmert vildi fá frá Palestínumönnum búa 75 prósent þeirra landtökumanna sem lagt hafa undir sig palestínskt land á Vesturbakkanum.

Frá þessu er skýrt á vefsíðu ísraelska dagblaðsins Haaretz. Þar er einnig haft eftir Mahmoud Abbas, forseta Palestínustjórnar, að samninganefnd Ísraela hafi lagt fram margvísleg tilboð.

Þetta tiltekna tilboð er sagt hafa verið sett fram hinn 16. september árið 2008, þegar Olmert átti erfitt með að bjóða trúverðuga samninga vegna spillingarmála sem höfðu veikt stöðu hans mjög. Daginn eftir tapaði Olmert í leiðtogakjöri stjórnmálaflokks síns, Kadima.

Palestínumenn svöruðu ekki tilboðinu og viðræðurnar náðu engu skriði, þótt stefnt hafi verið að því að ljúka þeim fyrir árslok. Endanlega slitnaði síðan upp úr viðræðum þegar Ísraelar hófu innrás sína á Gasasvæðið í lok desember.

Undanfarna mánuði hefur strandað á því að Ísraelar neita að stöðva framkvæmdir á landtökusvæðum á Vesturbakkanum og í austanverðri Jerúsalem.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×