Innlent

Götuljós loga lengur í Garðabæ en Reykjavík

Úr myndasafni. Mynd/Hörður Sveinsson
Úr myndasafni. Mynd/Hörður Sveinsson
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, fór þess á leit við Orkuveitu Reykjavíkur í morgun að götulýsing í Garðabæ yrði strax færð aftur í fyrra horf. Hann segir að öryggi fólks vegi þyngra en sparnaður.

Orkuveitan hefur þegar brugðist við og því loga götuljósin lengur í Garðabæ frá deginum í dag, að fram kemur í tilkynningu frá upplýsingarstjóra Garðabæjar. Orkuveitan hóf tilraun í haust sem hafði í för með sér sér styttri lýsingartíma en verið hefur á veturna. Tilraunin fól í sér að viðmiðun við dagsbirtuna var breytt úr 50 lux í 20 lux, sem er það viðmið sem tíðkast meðal annars í Noregi.

„Það þýðir að jafnaði að það slökknar fyrr á götuljósunum á morgnana og kviknar seinna á þeim á kvöldin. Þessi tilraun var gerð að kröfu Reykjavíkurborgar. Upphaflega átti hún að standa til 1. nóvember en Reykjavíkurborg ákvað að framlengja hana til 1. júni 2010," segir í tilkynningunni.

Gunnar segir að öryggi vegfarenda vegi þyngra en hugsanlegur sparnaður. „Garðabær vill tryggja íbúum sínum þá öryggislýsingu sem við erum vön og höfum alist upp við. Ég tel ekki hægt að miða við erlenda staðla í þessu samhengi. Aðstæður eru aðrar hér og veðurfar ólíkt því sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Ég tel engan veginn forsvaranlegt að gera tilraunir með jafn brýnan öryggisþátt og götulýsing er hér í mesta skammdeginu," er haft eftir Gunnari í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni hefur viðmiðun götulýsingar í Garðabæ nú þegar verið breytt í fyrra horf. Ljósin munu því kvikna fyrr í Garðabæ í dag og loga lengur fram eftir degi á morgun en annars hefði verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×