Innlent

Rafknúin og græn framtíð á Vopnafirði

Uppbygging
Mjöltankar fyrirtækisins voru fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar og hækkaðir um nokkra metra.
mynd/hb grandi
Uppbygging Mjöltankar fyrirtækisins voru fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar og hækkaðir um nokkra metra. mynd/hb grandi

Fjárfestingar HB Granda hf. í uppsjávarvinnslu félagsins á Vopnafirði haf numið tæplega fjórum milljörðum króna frá þeim tíma sem liðinn er frá sameiningu fyrirtækisins við Tanga hf. fyrir fimm árum. Senn sér fyrir endann á uppbyggingunni. Á næsta ári verður lokið við byggingu nýrrar fiskmjölsverksmiðju auk þess sem ráðist verður í endurbætur á uppsjávarfrystihúsi.

Umhverfisáhrifin eru veruleg því ekki þarf lengur að brenna olíu við framleiðslu á fiskmjöli og -lýsi en undanfarin ár hefur olíunotkun verksmiðjunnar numið um 2,5 til 3,0 milljónum lítra á ári.

Með lokuðu kerfi hvað varðar geymslu og flutning á mjöli frá verksmiðjunni um borð í flutningaskip mun notkun einnota mjölpoka leggjast af. Árlega hafa verið notaðir um ellefu til tólf þúsund pokar í þessu skyni og þá hefur orðið að urða eftir notkun.

Þetta kom fram á kynningarfundi sem nokkrir af lykilstjórnendum HB Granda héldu með sveitarstjórnarmönnum á Vopnafirði í liðinni viku.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á möguleikum til veiða á uppsjávartegundum frá árinu 2005. Það ár veiddu skip hins sameinaða félags 265 þúsund tonn af kolmunna, síld og loðnu en til samanburðar mætti nefna að heimildir þess í sömu fisktegundum á þessu ári nema aðeins 63 þúsund tonnum. Þar munaði mestu um hrun í loðnuveiðum og verulegan samdrátt í veiðum á kolmunna. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt hefur Vopnafjörður haldið hlut sínum betur en mörg önnur sveitarfélög, en fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins á Vopnafirði eru rúmlega fimmtíu talsins.

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, fjallaði á fundinum sérstaklega um þær væntingar sem bundnar væru við hina nýju fiskmjölsverksmiðju sem verður ein sú fullkomnasta sinnar tegundar. Markmiðið væri að auka nýtinguna, bæta gæði afurðanna, lækka rekstrarkostnaðinn og bæta umhverfisáhrifin.

Meðal nýjunga er að settur hefur verið upp rafskautaketill, sem þegar hefur verið gangsettur, og stefnt er að því að nýja verksmiðjan verði hin fyrsta í heiminum sem eingöngu mun nýta raforku til framleiðslu á hágæðafiskmjöli.

Loftræsting í nýju verksmiðjunni verður einnig með því besta sem þekkist. Þá verða settir upp söfnunartankar fyrir hreinsiefni þannig að hægt verði að nota þau til að þrífa búnað verksmiðjunnar oftar en einu sinni. - shá

Nýtt verksmiðjuhús Fyrst og síðast er horft til þess að vinnsla á mjöli og lýsi sé umhverfisvæn.mynd/hb Grandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×