Erlent

Segir skjalið í Times falsað

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í síðustu viku. fréttablaðið/AP
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í síðustu viku. fréttablaðið/AP

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti segist enga ástæðu hafa til að taka mark á lokafresti, sem Barack Obama Bandaríkjaforseti setti Írönum til að samþykkja samning um skipti á auðguðu úrani og kjarnorkueldsneyti.

Hann segir enn fremur að skjal, sem birt var í breska dagblaðinu Times og á að sanna að Íranar hafi áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum, sé falsað.

Skjalið er lýsing á vinnuáætlun um þróun kveikjubúnaðar fyrir kjarnorkusprengju. Bandarísk stjórnvöld segja enga staðfestingu hafa fengist á því að þetta skjal sé ófalsað.

Í ræðu sem Ahmadinejad hélt í borginni Shiraz sagði hann alþjóðasamfélagið geta sett Írönum eins marga lokafresti og því sýnist. Þeim sé alveg sama.

„Við sögðum ykkur að við værum ekki hrædd við refsiaðgerðir gegn okkur,“ sagði Ahmadinejad og beindi orðum sínum til Vesturlanda. „Ef við vildum smíða sprengju, þá myndi okkur ekki skorta hugrekki til að segja ykkur frá því.“

Þrátt fyrir að Íranar hafi statt og stöðugt neitað því að hafa einhver áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum, telja leiðtogar Vesturlanda sig þurfa aðra staðfestingu á því en orðin ein. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×