Erlent

Bretar reiðast á 8:22

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Reiður Breti við tölvuskjáinn.
Reiður Breti við tölvuskjáinn.

Bretar eru að meðaltali átta mínútur og 22 sekúndur að missa stjórn á skapi sínu. Það var fjarskiptafyrirtækið TalkTalk sem stóð fyrir könnun meðal rúmlega 2.000 Breta og gekk hún út á að athuga hvað það tæki þá langan tíma að reiðast yfir hinu og þessu, hlutum á borð við hve lengi þeir væru látnir bíða í síma, hve lengi netsíða væri að opnast og svo framvegis.

Rannsóknarspurningin sem lagt var upp með var að Netið og hin öra þróun þess í átt að auknum hraða og þess að um það bil allt sé bara einn músarsmell í burtu hafi stytt þráðinn verulega í hinum almenna neytanda og þolinmæði almennings hafi skerst svo um munaði af þessum völdum. Þetta reyndist á rökum reist og kom meðal annars fram í rannsókninni að rúmlega 70 prósent netnotenda reiðast þurfi þeir að bíða í meira en mínútu eftir að síða á vefnum opnist.

Biðtími á skyndibitastöðum var einnig kannaður og kom þá í ljós að eftir rúmlega átta og hálfa mínútu frá því að fólk pantaði mat er það að jafnaði orðið hundfúlt sé maturinn ekki kominn. Hafi móttakandi SMS-skilaboða ekki svarað þeim eftir þrettán mínútur er góða skapið að jafnaði farið en lokaniðurstaða rannsóknarinnar og meðaltalstalan yfir það hve lengi hinn almenni Breti er að reiðast er einfaldlega átta mínútur og 22 sekúndur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×