Innlent

Ríkisskattstjóri rannsakar fleiri greiðslukort

Þrjátíu erlend greiðslukort hafa bæst við í rannsókn Ríkisskattstjóra á notkun kortanna hér á landi eftir að tímabil rannsóknarinnar var lengt. Alls eru því 60 erlend greiðslukort til skoðunar. Íslenskir eigendur kortanna notuðu erlendu kortin hér á landi og gátu þannig komist hjá því að greiða skatt af tekjum sínum.

Ríkisskattstjóri fékk heimild síðasta haust til að nálgast upplýsingar um hreyfingar á greiðslukortum sem gefin eru út erlendis og skuldfærð þar en notuð til úttektar á Íslandi svo fremi sem heildarúttekt hvers korts á hverju tímabili næmi að minnsta kosti fimm milljónum króna.

Rannsóknin hefur verið umfangsmikil en eigendum verslana hefur borist bréf frá Ríkisskattstjóra þar sem upplýsinga er krafist um hvaða einstaklingar voru á bak við greiðslukort sem hafa verið notuð í viðskiptum. Fyrirtæki hafa einnig verið heimsótt í sama tilgangi. Í upphafi miðaðist tímabilið sem var til skoðunar við júlí 2006 til júní 2007. Tímabilið var síðar lengt til júní á síðasta ári.

Heimildir fréttastofu herma að við lengingu tímabilsins hafi komið fram nýir notendur. 30 ný greiðslukort hafi bæst við þau 30 sem nú þegar voru til rannsóknar. Fram hefur komið að Ríkisskattstjóri hefur nafngreint nær alla eigendur kortanna en eftir að fjöldi korta tvöfaldaðist lengdist rannsóknin. Enn er verið að skoða gögn frá kortafyrirtækjum og á enn eftir að nafngreina hluta af eigendum kortanna. Um leið og því er lokið verður viðkomandi einstaklingum sent bréf frá Ríkisskattstjóra þar sem óskað er eftir því að þeir geri grein fyrir erlendum tekjum og eignum. Geti þeir það ekki verður mál þeirra sent til skattrannsóknarstjóra. Heimildir fréttastofu herma að bréfin verði send út síðar í mánuðinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×