Erlent

Lygafrétt um mannafitusölu

Óli Tynes skrifar
Felix Murga sýnir flöskur sem hann segir innihalda mannafitu, á frægum blaðamannafundi.
Felix Murga sýnir flöskur sem hann segir innihalda mannafitu, á frægum blaðamannafundi.

Háttsettum lögregluforingja í Perú hefur verið vikið úr starfi fyrir að segjast hafa handtekið glæpagengi sem seldi mannafitu til snyrtivöruframleiðenda í Evrópu.

Felix Murga hélt blaðamannafund þar sem hann sýndi meðal annars það sem hann sagði vera fljótandi mannafitu í flöskum.

Hann sagði að glæpagengið sem hann hefði handtekið hefði myrt að minnsta kosti sextíu manns til þess að ná úr því fitunni.

Þessi blaðamannafundur fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina þegar hann var haldinn í síðasta mánuði.

Síðan hefur lögreglan í Perú verið skoða málið nánar og komist að þeirri niðurstöðu að það sem Felix Murga sagði hafi verið hreinn uppspuni. Ekkert hafi fundist sem skjóti rótum undir fullyrðingar hans.

Ríkislögreglustjóri Perús hefur því vikið Murga úr starfi meðan verið er að rannsaka hver fjárinn var þarna eiginlega á seyði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×