Skoðun

Auðlindaákvæðið og ESB-aðild

Að áliti margra lögspekinga þarf að breyta stjórnarskránni svo að Ísland geti gengið í Evrópusambandið (ESB). Þetta byggir fyrst og fremst á því að við inngöngu í ESB yrði óhjákvæmilega umfangsmikið framsal ríkisvalds sem myndi brjóta í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á stjórnarskránni en engar tillögur eru lagðar fram í frumvarpinu sem veita heimildir til framsals ríkisvalds eða önnur frávik frá 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Fyrsta málsgrein 1. gr. téðs frumvarps til breytinga á stjórnarskrá er svohljóðandi: „Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum." Sé litið til ummæla í greinargerð með frumvarpi til stjórnskipunarlaga þá má ætla að fyrri málsliðurinn kveði m.a. á um að ríkinu sé fenginn eignarréttur á þeim náttúruauðlindum sem enginn annar lögaðili eða einstaklingur hefur sannað eignarrétt sinn á. Um síðari málsliðinn er í greinargerð m.a. fullyrt að hann feli í sér sambærilegar heimildir ríkisvalds og almennt leiði af fullveldisrétti ríkja.

Í 2. ml. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að náttúruauðlindir í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Frumvarpstillagan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá hlýtur að vera bundin þeim forsendum að allar náttúruauðlindir séu eignarhæfar í sjálfu sér og að fiskveiðiréttindi í íslenska fiskveiðistjórnkerfinu séu ekki háð einkaeignarrétti. Séu þessar forsendur réttar, sem hér er engin afstaða tekin til, þá hljóta orðin „ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt" í 1. gr. auðlindaákvæðisins að hafa þýðingu í skilningi eignarréttar, þ.e. ríkið öðlast þær heimildir sem felast í þjóðareignarhugtakinu. Framanrakin ummæli í greinargerð, sem gefa til kynna að eingöngu sé um fullveldisrétt ríkisins að ræða, víkja vart texta ákvæðisins til hliðar.

Geri Ísland aðildarsamning við ESB eru verulegar líkur á að engar varanlegar undanþágur fáist frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins. Standist forsendur þær sem liggja til grundvallar auðlindaákvæðinu hefði innganga Íslands í ESB væntanlega í för með sér að íslenska ríkið hefði ekki „forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt" fiskveiðiauðlindarinnar á Íslandsmiðum. Verði auðlindaákvæðið að lögum mun innganga Íslands í ESB vera brot á ákvæðinu.

Sú framtíðarsýn er málefnaleg að Ísland eigi að ganga í ESB. Í stað þess að breyta stjórnarskránni í þá veru að engar lagalegar tálmanir séu því í vegi er nú lagt til að bætt verði ákvæði í stjórnarskrá sem geri slíka inngöngu að öllum líkindum torsóttari. Þetta eru merkileg tíðindi, ekki síst ef miðað er við þjóðfélagsumræðuna síðustu misseri um aðild Íslands að ESB.

Höfundur er lögfræðingur.






















Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×